Það var aldrei planið hjá mér að stofna fyrirtæki. Það var heldur aldrei planið að vera sjálfstætt starfandi, en þegar ég var búin að vera sjálfstætt starfandi í meira en ár og síminn var ekki hættur að hringja þá vissi ég að ég yrði að taka ákvörðun um að annað hvort skuldbinda mig til að vera sjálfstæður ráðgjafi eða fara að leita mér að “alvöru vinnu”. Það væri ekki réttlátt gagnvart viðskiptavinum mínum, notendum þeirra eða mér að ég gæti skipt um kúrs fyrirvaralaust.
Í dag markar svo rétt ár síðan ég vaknaði og vissi undir hvaða merkjum mín ráðgjöf myndi sigla. Hún yrði Mennsk. Ég er Mennsk. Tæknin er Mennsk. Og Mennsk ráðgjöf var skráð í janúar 2020.
Árið 2020 var birtingarmynd þess þegar fólk bölvar öðrum og óskar þess að það lifi á áhugaverðum tímum. Náttúruhamfarir og heimsfaraldur hefur dunið á mannkyninu sem veit vart hvaðan á sig veðrið stendur. Við höfum þurft að gera stórar breytingar á okkar viðhorfum og lífstíl á árinu og margir sitja sárir eftir.
Ein af stóru breytingum ársins er sú að byggja á þeirri tækni sem hefur verið í mótun undanfarna áratugi og nýta hana þegar aðrir möguleikar voru skyndilega ekki í boði. Við sem höfum áralangt beitt okkur fyrir notkun tækninnar og höfum jafnlengi fengið að heyra að tæknin gæti ekki mögulega leyst þau verkefni sem við vildum að hún leysti, fengum allt í einu hljómgrunn. Það er hægt að funda yfir fjarfundabúnað. Það er hægt að skrifa undir rafrænt. Það er hægt að skila stafrænum gögnum.
Ekki bara hægt. Það þarf. Það verður. Það strax.
Allar kannanir sem ég tók þátt í á þessu ári varðandi atvinnuhorfur og stöðu lítilla fyrirtækja gerðu ekki ráð fyrir því (frekar en ég í upphafi árs) að litla fyrirtækið mitt yrði “uppselt” um mitt ár og fram á næsta.
Á þessu ári hefur Mennsk ráðgjöf tekið sína yfirlýstu nálgun um að horfa á vörur og þjónustu út frá notendum og nýta tæknina til góðs fyrir þá og unnið fyrir 12 viðskiptavini. Saman höfum við:
Varpað nýju ljósi á viðskiptavini og þeirra þarfir sem nýtast beint inn í vöruþróun með viðtölum við viðskiptavini.
Hjálpað þróunarteymum að fá nýja sýn á þeirra stafrænu vöruþróun með sérfræðingsmati og ráðgjöf.
Stillt saman strengi þvert á fyrirtæki og einingar til að nýta tæknilega innviði sem best til samskipta og varðveislu gagna með ferlagreiningu og -teikningum.
Unnið stafrænni stjórnsýslu framgang með því að horfa á hana út frá upplifun borgaranna en ekki þægindum stofnananna.
Þjónað vandasömum og viðkvæmum hópum í erfiðri stöðu með því að leggja sig fram við að skilja og mæta þeirra þörfum.
Ég hef kynnst frábæru fólki og lært ótal margt. Fyrir það er ég óendanlega þakklát. Ég hlakka til að halda áfram og gera enn betur 2021.
Við búum yfir gríðarlegu afli í tækni þessarar enn nýju aldar en við verðum að nýta hana til hagsbóta fyrir okkur mannfólkið, ekki fyrir hagnaðinn, skilvirknina eða tæknina sjálfa. Árið 2021 kemur til með að hafa sínar áskoranir þrátt fyrir að við færumst nær því að hemja heimsfaraldurinn. Við verðum að vera meðvituð um hvaða áhrif tæknin hefur á umhverfi sitt, hvort tveggja plánetuna og “fórnarlömb” tækninnar — þau sem annað hvort nota tæknina eða sitja undir áhrifum hennar á einn eða annan hátt. Við megum ekki leyfa að kerfisbinda (bókstaflega) tímaskekkjur á borð við útilokun og mismunun. Það gerum við með því að mæta þörfum notenda, með fjölbreyttum teymum og opnum huga fyrir því að læra hvert af öðru.
Tæknin verður að vera mennsk.
Comments