Skýrt og hnitmiðað
- Magga Dora Ragnarsdottir
- 4 days ago
- 3 min read
Updated: 2 days ago
Við hjá Mennskri ráðgjöf tökum að okkur alls konar verkefni fyrir okkar viðskiptavini en það sem ég átti kannski ekki von á að yrði jafn stór hluti af okkar verkefnum og raun ber vitni er að skrifa skiljanlegan texta. Stundum þýðir það að við endurskrifum efni sem nú þegar er í birtingu. Stundum þýðir það að við vinnum efni frá grunni.

Það er óhætt að segja að þegar við vinnum efni í skiljanlegan texta þá kemur það okkar viðskiptavinum oft á óvart að textinn sem þau leggja til sé tyrfinn. Það er svo auðvelt að verða samdauna því máli sem talað er innan stofnana. Nú er ég ekki að segja að þar sé ekki töluð íslenska, en íslenska hefur mörg blæbrigði og eru þau misjöfn eftir sérsviðum og fagstéttum. Þannig þykir sérfræðingum sem nota í sínu daglega starfi orð eins og lyfjagreiðsluþátttaka eða réttarvörslukerfi þau vera skýr og einföld.
Það vakti sérstaka athygli okkar í desembermánuði þegar hæstiréttur úrskurðaði í einu af svokölluðum vaxtamálum að eftirfarandi skilmálar þættu réttinum skýrir og hnitmiðaðir og því væri ekki á neytendur hallað.
„Við ákvarðanir á breytilegum vöxtum íbúðalána Arion banka er horft til breytinga á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum, breytinga á fjármögnunarkostnaði, rekstrarkostnaði, smásöluálagningu bankans og álagningu bankans vegna útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans ræðst annars vegar af arðsemiskröfu eigin fjár og hins vegar af kostnaði við aðra fjármögnun bankans. Hlutfallið milli þessara tveggja þátta er breytilegt og ræðst meðal annars af ákvörðunum opinberra yfirvalda. Fjármögnunarkostnaður er metinn á vaxtaákvörðunardegi. Með rekstrarkostnaði er átt við rekstrarkostnað bankans eins og er hann áætlaður fram í tímann á vaxtaákvörðunardegi, miðað við síðasta uppgjör bankans. Með smásöluálagningu er átt við álagningu bankans eins og markaðsaðstæður gefa tilefni til. Með álagningu vegna útlánaáhættu er átt við mat bankans á framtíðargreiðslufalli og mat á tjóni bankans vegna framtíðargreiðslufalls sambærilegra og/eða hliðstæðra lána, sem byggir meðal annars á fyrri reynslu bankans. Vaxtabreytingardagar eru um mánaðamót, en vaxtabreytingar eru að jafnaði tilkynntar með 30 daga fyrirvara. Áskilur bankinn sér rétt til að breyta vöxtum með skemmri fyrirvara, að því marki sem slíkar breytingar leiða af þáttum sem bankinn hefur ekki stjórn á. Samkvæmt ofangreindu verða vextir lánsins ávallt í samræmi við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Þegar grunnvextir lánsins eru ákveðnir eru þeir þættir sem mynda vextina metnir sjálfstætt. Í kjölfarið er tekin ákvörðun um hvort aðstæður gefi tilefni til breytinga á vöxtunum. Getur breyting hvers þáttar um sig gefið tilefni til breytinga á vöxtunum.“
Málsgreinin er 242 orð í 13 setningum. Fyrsta setningin en 41 orð. Þarna má finna orð og hugtök eins og ávöxtunarkrafa, verðtryggður, skuldabréf, fjármálastofnun, fjármögnunarkostnaður, smásöluálagning, arðsemiskrafa, vaxtaákvörðunardagur, rekstrarkostnaður, uppgjör, eigið fé, markaðsaðstæður, útlánaáhætta, framtíðargreiðslufall, hliðstæður, vaxtabreytingadagur, grunnvextir.
Þegar við berum svona orð, jafnvel í samhengi, fyrir fólk sem þurfa að eiga í samskiptum við fyrirtæki og stofnanir en ekki eru sérfræðingar kemur í ljós að þau flækjast fyrir fólki. Ekki bara fyrir fólki sem á í erfiðleikum með að lesa löng orð eða hefur íslensku ekki að móðurmáli heldur líka fyrir fólki sem býr og starfar í íslensku þjóðfélagi og hefur gengið í gegnum íslenskt skólakerfi.
Þegar sagt er að stór hluti ungmenna geti ekki lesið sér til gagns þá er ekki verið að prófa þau á svona texta, er það það?



Comments